Sunday, April 5, 2009

Hamstrar



Gaf sjálfum mér þessa tvo hamstra í afmælisgjöf í síðustu viku. Gaman.

Thursday, March 12, 2009

Hlutir, stöff og drasl...

Tvær eftstu eru fyrir möppuna, og líka teikninging af Kubb á þriðju mynd, og svo málverkið sem ég byrjaði á í gær neðst.





Ekki klárað enn. Vantar að laga þetta á nokkrum stöðum. Augun til dæmis eru frekar tómleg.

Kjallarastrákur

Wednesday, March 11, 2009

Skólavesen

Vill biðjast afsökunar á uppfærsluskorti þessa síðustu daga (og dagana fyrir síðustu uppfærslu, og daga fyrir þarsíðustu...). Hef verið að teikna og teikna og teikna (og teikna), aðallega fyrir mein portfolio svo ég geti nú sótt um í Listaháskólanum. Þar komast víst inn um það bil 20% af þeim sem sækja um. Jahá! 50 umsækjendur (af rúmlega 100, alla vega síðustu ár) komast áfram í viðtöl og 20 þeirra komast inn.
Hef ágætis traust á þessum verkum sem ég mun senda inn en viðtalið hræðir mig svakalega. Finnst líklegt að ef ég eyðilegg einhversstaðar fyrir sjálfum mér þá verður það þar.
Eða þá í umsókninni þar sem ég þarf að skrifa um ástæður þess að mig langar í listnám, hvað ég vonast til að læra og hvað ég ætla mér að gera eftir skólann. Óttast að þau séu á höttunum eftir einhverju 'pretentious bullshit' og veit ekki hvort ég get blöffað það nógu sannfærandi.

Var að byrja á nýju málverki fyrir stuttu síðan, kannski mynd af því á morgun.
Já og svo eitt stórt í vinnslu, en það er algjört top secret og verður það til 1. apríl.

Kjallarastrákur

Friday, March 6, 2009

Looney Tunes teikningar

Hef verið að teikna þessa síðustu viku, ekkert búinn að vera að mála.

Hef þá aðallega verið að teikna eftir Looney Tunes:

Samkvæmt leiðbeiningum.

Ég gæti horft á þessar teiknimyndir endalaust. Alvöru skemmtun, annað en flestar teiknimyndir í dag.

Myndirnar sem ég teiknaði eftir:

Thursday, February 26, 2009

Sama gamla, sama gamla

Hef ekki verið algerlega iðjulaus. Hef verið að mála nokkuð, en þessi tvö tóku frekar langan tíma. Var að ljúka við þau bæði í dag.

24 x 18 cm, 7000 kr

40 x 30 cm, 13000 kr

Og hvað er svo að frétta af mér annað en þetta? Ekki mikið, en ég skrapp í sund í gær.
Fyrsta skipti í næstum 10 ár sem ég fer í sund í lauginni hér á Ísafirði.

Mjög frískandi, þyrfti að gera þetta aftur fljótlega. Kannski bara hafa þetta reglulegt?

Steini Sundkappi

Wednesday, February 18, 2009

Mirror's Edge

Hef verið að spila þennan leik nýlega. Mjög áhugaverður leikur, og vel gerður á flestan hátt. "Hreint" útlit leiksins og djörf notkun á skærum litum kemur vel út á skjánum, stjórn leiksins virkar einfaldlega mjög vel og spilun er yfirhöfuð skemmtileg.

Á stundum lá þó við að ég grýtti fjarstýringunni í sjónvarpið.



Leikurinn getur nefnilega verið dálítið pirrandi.

Vandi leiksins felst aðallega í umhverfinu. Í leik sem þessum þar sem spilun er hröð er mikil þörf á skýrum "leiðbeiningum", eitthvað til að stýra leikmanni á rétta braut. Leikmanni má aldrei finnast hann vera týndur, því það leiðir of auðveldlega til pirrings. Það gerist frekar oft í þessum leik að maður týnist; maður hleypur og stekkur og hleypur og er allt í einu kominn inn í eitthvert horn og þarf að líta í kringum sig til að finna leiðina áfram og þá er yfirleitt verið að elta mann eða skjóta á mann og getur vanhugsuð hönnun borða því oft leitt til dauða.

Ekki að það sé eitthvað að því að deyja, enda þarf í leikjum yfirleitt að vera einhver erfiðleiki sem þarf að yfirstíga. En dauði leikmanns má aldrei vera vegna einhvers annars en hans eigin mistaka. Ef leikmaður deyr vegna þess að hann spilaði leikinn ekki nógu vel þá er það eitt, en dauði vegna þess að hönnun leiksins er ekki nógu skýr er allt annað og verra.


Ég hef verið að hugsa mikið um einmitt þetta og önnur svipuð vandamál í tengslum við leik okkar Tómasar Árna. Það er, eins og ég minntist á hér áðan, mjög mikilvægt að sá sem spilar leikinn viti alltaf til hvers er ætlast af honum. Hann verður að vita hvert hann á að fara, hvað hann á að gera og hvernig. Að vita ekki hvað maður á að gera í leik leiðir bara til pirrings.

En svo er líka hægt að fara of langt, gera markmið of augljós. Þá leiðir leikurinn mann áfram og sleppir ekki taki, eins og verið sé að leiða lítinn krakka yfir götu. Leikurinn verður allt of auðveldur, allt of augljós; "hvert", "hvað" og "hvernig" eru eins og skærir ljósdeplar í myrku herbergi en ættu kannski frekar að vera daufar ljóstýrur.

Það fer að sjálfsögðu eftir hverskonar leik er verið að fjalla um hvað telst of mikið eða of lítið af leiðbeiningum. Sumir leikir geta ekki verið of augljósir á meðan aðrir þurfa að vera óljósir (að einhverju leiti að minnsta kosti).

Veit ekki alveg hvert ég er að fara með allt þetta, langaði bara að skrifa eitthvað um það sem ég er að hugsa þessa stundina.

Monday, February 16, 2009

Hmmm...

Jæja, byrjaður að mála aftur eftir næstum viku pásu. Hef verið dáldið latur síðustu daga, þó sjaldan fullkomlega aðgerðarlaus.

Þetta málaði ég í gær:


Smá tilraun frá því fyrr í dag:

Þetta byrjaði ég að mála fyrr í kvöld:

Tvær litlar teikningar:
Er að hugsa um að gera nokkur eintök af þessum og fleiri svipuðum teikningum til að selja á næsta Dalaporti. Svona til að hafa fjölbreytt úrval af vörum, og til að hafa eitthvað einfalt og ódýrt. Kannski 200 kall myndin? Held að ég lími hverja mynd á stífan pappír, kannski svartan, kannski hvítan, kannski spes litur fyrir hverja mynd...



Enn í vei. Langar dáldið að skrifa einhvern smá pistil fyrir bloggið, mögulega aftur eitthvað tengt leikjahönnun... kannski ég taki fyrir einhvern spes leik... já....

Kjallarastrákur... er hugsi