Sunday, April 5, 2009

HamstrarGaf sjálfum mér þessa tvo hamstra í afmælisgjöf í síðustu viku. Gaman.

Thursday, March 12, 2009

Hlutir, stöff og drasl...

Tvær eftstu eru fyrir möppuna, og líka teikninging af Kubb á þriðju mynd, og svo málverkið sem ég byrjaði á í gær neðst.

Ekki klárað enn. Vantar að laga þetta á nokkrum stöðum. Augun til dæmis eru frekar tómleg.

Kjallarastrákur

Wednesday, March 11, 2009

Skólavesen

Vill biðjast afsökunar á uppfærsluskorti þessa síðustu daga (og dagana fyrir síðustu uppfærslu, og daga fyrir þarsíðustu...). Hef verið að teikna og teikna og teikna (og teikna), aðallega fyrir mein portfolio svo ég geti nú sótt um í Listaháskólanum. Þar komast víst inn um það bil 20% af þeim sem sækja um. Jahá! 50 umsækjendur (af rúmlega 100, alla vega síðustu ár) komast áfram í viðtöl og 20 þeirra komast inn.
Hef ágætis traust á þessum verkum sem ég mun senda inn en viðtalið hræðir mig svakalega. Finnst líklegt að ef ég eyðilegg einhversstaðar fyrir sjálfum mér þá verður það þar.
Eða þá í umsókninni þar sem ég þarf að skrifa um ástæður þess að mig langar í listnám, hvað ég vonast til að læra og hvað ég ætla mér að gera eftir skólann. Óttast að þau séu á höttunum eftir einhverju 'pretentious bullshit' og veit ekki hvort ég get blöffað það nógu sannfærandi.

Var að byrja á nýju málverki fyrir stuttu síðan, kannski mynd af því á morgun.
Já og svo eitt stórt í vinnslu, en það er algjört top secret og verður það til 1. apríl.

Kjallarastrákur

Friday, March 6, 2009

Looney Tunes teikningar

Hef verið að teikna þessa síðustu viku, ekkert búinn að vera að mála.

Hef þá aðallega verið að teikna eftir Looney Tunes:

Samkvæmt leiðbeiningum.

Ég gæti horft á þessar teiknimyndir endalaust. Alvöru skemmtun, annað en flestar teiknimyndir í dag.

Myndirnar sem ég teiknaði eftir:

Thursday, February 26, 2009

Sama gamla, sama gamla

Hef ekki verið algerlega iðjulaus. Hef verið að mála nokkuð, en þessi tvö tóku frekar langan tíma. Var að ljúka við þau bæði í dag.

24 x 18 cm, 7000 kr

40 x 30 cm, 13000 kr

Og hvað er svo að frétta af mér annað en þetta? Ekki mikið, en ég skrapp í sund í gær.
Fyrsta skipti í næstum 10 ár sem ég fer í sund í lauginni hér á Ísafirði.

Mjög frískandi, þyrfti að gera þetta aftur fljótlega. Kannski bara hafa þetta reglulegt?

Steini Sundkappi

Wednesday, February 18, 2009

Mirror's Edge

Hef verið að spila þennan leik nýlega. Mjög áhugaverður leikur, og vel gerður á flestan hátt. "Hreint" útlit leiksins og djörf notkun á skærum litum kemur vel út á skjánum, stjórn leiksins virkar einfaldlega mjög vel og spilun er yfirhöfuð skemmtileg.

Á stundum lá þó við að ég grýtti fjarstýringunni í sjónvarpið.Leikurinn getur nefnilega verið dálítið pirrandi.

Vandi leiksins felst aðallega í umhverfinu. Í leik sem þessum þar sem spilun er hröð er mikil þörf á skýrum "leiðbeiningum", eitthvað til að stýra leikmanni á rétta braut. Leikmanni má aldrei finnast hann vera týndur, því það leiðir of auðveldlega til pirrings. Það gerist frekar oft í þessum leik að maður týnist; maður hleypur og stekkur og hleypur og er allt í einu kominn inn í eitthvert horn og þarf að líta í kringum sig til að finna leiðina áfram og þá er yfirleitt verið að elta mann eða skjóta á mann og getur vanhugsuð hönnun borða því oft leitt til dauða.

Ekki að það sé eitthvað að því að deyja, enda þarf í leikjum yfirleitt að vera einhver erfiðleiki sem þarf að yfirstíga. En dauði leikmanns má aldrei vera vegna einhvers annars en hans eigin mistaka. Ef leikmaður deyr vegna þess að hann spilaði leikinn ekki nógu vel þá er það eitt, en dauði vegna þess að hönnun leiksins er ekki nógu skýr er allt annað og verra.


Ég hef verið að hugsa mikið um einmitt þetta og önnur svipuð vandamál í tengslum við leik okkar Tómasar Árna. Það er, eins og ég minntist á hér áðan, mjög mikilvægt að sá sem spilar leikinn viti alltaf til hvers er ætlast af honum. Hann verður að vita hvert hann á að fara, hvað hann á að gera og hvernig. Að vita ekki hvað maður á að gera í leik leiðir bara til pirrings.

En svo er líka hægt að fara of langt, gera markmið of augljós. Þá leiðir leikurinn mann áfram og sleppir ekki taki, eins og verið sé að leiða lítinn krakka yfir götu. Leikurinn verður allt of auðveldur, allt of augljós; "hvert", "hvað" og "hvernig" eru eins og skærir ljósdeplar í myrku herbergi en ættu kannski frekar að vera daufar ljóstýrur.

Það fer að sjálfsögðu eftir hverskonar leik er verið að fjalla um hvað telst of mikið eða of lítið af leiðbeiningum. Sumir leikir geta ekki verið of augljósir á meðan aðrir þurfa að vera óljósir (að einhverju leiti að minnsta kosti).

Veit ekki alveg hvert ég er að fara með allt þetta, langaði bara að skrifa eitthvað um það sem ég er að hugsa þessa stundina.

Monday, February 16, 2009

Hmmm...

Jæja, byrjaður að mála aftur eftir næstum viku pásu. Hef verið dáldið latur síðustu daga, þó sjaldan fullkomlega aðgerðarlaus.

Þetta málaði ég í gær:


Smá tilraun frá því fyrr í dag:

Þetta byrjaði ég að mála fyrr í kvöld:

Tvær litlar teikningar:
Er að hugsa um að gera nokkur eintök af þessum og fleiri svipuðum teikningum til að selja á næsta Dalaporti. Svona til að hafa fjölbreytt úrval af vörum, og til að hafa eitthvað einfalt og ódýrt. Kannski 200 kall myndin? Held að ég lími hverja mynd á stífan pappír, kannski svartan, kannski hvítan, kannski spes litur fyrir hverja mynd...Enn í vei. Langar dáldið að skrifa einhvern smá pistil fyrir bloggið, mögulega aftur eitthvað tengt leikjahönnun... kannski ég taki fyrir einhvern spes leik... já....

Kjallarastrákur... er hugsi

Wednesday, February 11, 2009

Skítakuldi, best að halda sig inni

Málverkið sem ég minntist á:

Skrapp út í kalda veðrið með myndavélina:

Tuesday, February 10, 2009

Þriðjudagar fyrir þreytu

Málaði eitt nýtt í dag, en of þreyttur (latur) til að taka mynd af því. En þið fáið að minnsta kosti smá dose af Queen:Nýja myndin á morgun, + eitthvað extra.

Monday, February 9, 2009

Mánudagar fyrir málverk

Málaði eitt nýtt í morgun:

Svo þetta hér, teiknað upp úr ljósmyndum á Facebook:

Málaði þessi tvö í síðustu viku fyrir Dalaportið:

Sunday, February 8, 2009

Dalaport

Skrapp inn í Arnardal í dag með mömmu og Ellu frænku á Dalaportið. Þær systur voru með truckload of glervöru og ég einungis með sex stykki málverk. Mér tókst ekki að selja nema eina. Sú eina var keypt af "húsinu" og hangir nú upp á vegg inni í Arnardal.

Fór á 7000 krónur.

Þetta var bara ágætt, þó helvíti kalt. Kem þangað aftur í næsta mánuði, þá með fleiri myndir og meira úrval. Það helsta sem vantaði upp á núna var að vera með einhver smærri verk sem ég get selt á kannski 1000-2000 krónur. Býst við að fólk sé ekki mikið að fara þangað til að kaupa eitthvað á 5-10 þúsund.

Thursday, February 5, 2009

Mála mála mála...

Hef verið að kaupa dáldið mikið af málningarvörum síðastliðnar vikur þannig að fannst tilvalið að fara að nota þetta eitthvað.

Hér eru fjórar litlar sem fara saman:

Og hér er eitt stærra (málaði yfir eitt eldra málverk, var ekki alveg nógu ánægður með það):

Og svo þetta hér sem er enn í vinnslu þessa stundina:

Thursday, January 29, 2009

Málverk og málaradót


Hmmm... á erfitt með að reyna að mála eitthvað sem hefur einhverja merkingu. Þetta er bara gras og himinn og svo einhver stöng. Finnst mér hafa tekist vel að mála þetta, ágætir litir og uppsetning, en þetta er í raun ekkert. Kannski að fara að mála upp úr ljósmyndum ef ég ætla að mála landslagsmyndir... og svo með vorinu að skella sér út í alvöru náttúru.

Sumir eru mjög snemma í afmælisgjöfunum þetta árið:

Fékk þetta frá mömmu og pabba, 2.5 mánuðum á undan áætlun.

Friday, January 23, 2009

Leikjahönnun frh.

Og þá höldum áfram þar sem frá var horfið. Ég var að tala um hvernig halda má leik "ferskum" og nefndi þrjá þætti (stjórn, umhverfi, breytt spilun) sem hægt er að nýta sér. Ég stekk held ég bara beint út í og byrja að útskýra hvað ég átti við:

Stjórn
Kynnt er til leiks eitthvað nýtt sem viðkemur stjórn á leiknum. T.d. eldblómið í Super Mario Bros sem flestir kannast við, eða skikkjan í Super Mario World sem gerir Mario kleift að fljúga, eða þá "double-jump" sem kemur fram í mörgum leikjum.
Inn í þetta falla líka öll vopn og tæki af ýmsu tagi. (eitt gott dæmi er "gravity gun" úr Half-Life 2)
Sem sagt allt sem viðkemur stjórn leikmanns á leiknum.

Hægt er einfaldlega að passa að hafa fjölbreytt og skemmtileg stjórntæki í leiknum frá byrjun, eða þá að kynna sífellt ný vopn eða tæki, eða notast við "power-ups" (aftur eldblómið í Mario, og sveppurinn góði og stjarnan).

Hægt er að flokka þetta svo allt niður í einhverjar sub-kategoríur.


Umhverfi
Allt sem að hefur áhrif á persónu leikmanns í leiknum sem kemur ekki frá leikmanni. Það eru þá óvinir, þyngdar- og annarskonar öfl, hönnun borða leiksins og þess háttar.
Nýir óvinir krefjast breyttrar hugsunar, þarf að hugsa um nýjar leiðir til að sigrast á því sem maður hefur ekki séð áður. Eða þá gamlir óvinir undir nýjum kringumstæðum, kannski maður hafi áður einungist barist við þá á opnum svæðum, en svo þarf maður að hugsa alla herkænskuna upp á nýtt þegar maður mætir þeim í þröngum göngum eða undir öðrum nýjum kringumstæðum.

Og undir þetta fellur þá almennt séð hönnun borða leiksins, sem er mikilvægt að haldist fersk og fjölbreytt. Ekki má notast um of við samskonar uppsetningu aftur og aftur, fólk þreytist á því.


Breytt spilun
Held að þetta mætti flokka sem undirflokk í 'stjórn', en vildi minnast á þetta sér af því mér finnst þetta vera sérlega áhugavert og líklega afar öflugt vopn í hönnun eftirminnilegra leikja.
Með 'breytt spilun' á ég við þegar leikir breytast að einhverju leyti (stundum verulegu) í einhvern tíma. Kannski þessi "platformer" leikur verði að kappakstursleik á einum punkt í sögunni (Jak 2), eða þegar það eru "auto-scroll" borð í Super Mario World / Super Mario Bros. 3, eða þá í Half-Life 2 þegar maður sest undir stýri á bíl og keyrir meðfram ströndinni.
Sem sagt stjórntækjum leiks og eða markmiðum er breytt, kannski svona smá blanda af 'stjórn' og 'umhverfi'.

Þetta brýtur upp hönnun leiksins og gefur leikmanni kost á að gera, í smá tíma, eitthvað annað en það sem leikurinn býður venjulega upp á.


World of Goo, minn uppáhaldsleikur árið 2008, var sífellt að bjóða upp á eitthvað nýtt. Engin tvö borð voru eins, hvorki í útliti né spilun, og á einum tímapunktu breyttist allur leikurinn á stórfelldan hátt bæði myndrænt séð og hvað spilun varðar og svo mikil var undrunin að ég sat dofinn fyrir framan skjáinn í smá tíma með risastórt bros stimplað yfir fésið áður en ég hélt áfram að spila. Það hvað leikurinn var fjölbreyttur og ferskur út allan þann tíma sem það tekur að klára hann gerði það að verkum að hann er mjög minnisstæður.

Mæli með að fólk kíki á vefsíðu 2D Boy og næli sér í demo af leiknum.


ps. Er að reyna að íslenska nokkur hugtök, svona upp á framtíðar leikjahönnunar blogg pósta, og þægi glaður uppástungur:

player - Held að leikmaður sé fínt orð, en er til í að hugsa málið ef betri þýðing berst til mín.
player character - Uhm... leikmannspersóna? Oj, ekki fallegt.
gameplay - Spilun? Einfalt, en ekki alveg nógu gott finst mér. Leikspilun? Hmm...

Málverk nr. 2


Hmmm... dáldið einfalt núna. Ánægður með það þrátt fyrir það.
Næst er það stóri striginn, þetta sem ég ætla að mála fyrir hann Unnþór.

Já, og framhaldið af leikjablogginu kemur fljótlega.

Kjallarastrákur

Monday, January 19, 2009

Dex-Dee-Dee-Dex

Settist aftur niður og teiknaði upp úr Dexter's Laboratory. Hmm... ekki alveg að ná þessu 100%. Dee Dee nr 2 er líklega sú besta af þessum þrem.

Litaði svo þessa með trélitum.


Kláraði málverkið. Ekkert allt of ánægður með það, en tæknin næst með tímanum og mistökin hverfa því meira sem ég mála.

Saturday, January 17, 2009

Leikjahönnun

Ég hef verið að pæla mikið í leikjahönnun þessa síðustu mánuði (enda að reyna að setja saman leik með honum Tómasi Árna). Reyni að vera alltaf með hugann opinn fyrir góðum hugmyndum þegar ég er að spila leiki, svo margt að taka eftir og læra.

Eitt sem ég hef verið að hugsa mikið um er hvernig hægt er að halda leik ferskum í gegnum þann fjölda klukkutíma sem tekur að klára leikinn. Það er ekki hægt að láta leikmann gera sömu hlutina aftur og aftur í fleiri tíma, það einfaldlega er ekki skemmtilegt (nema í örfáum undantekningum, t.d. Tetris og aðrir svipaðir leikir). Það þarf því reglulega að hrista aðeins upp í formúlunni, henda til leikmanns nýjum vopnum / óvinum / möguleikum eða þá að hrista bara upp í hönnun borða leiksins, hvað sem er til að halda áhuga þess sem spilar leikinn.

Til er fjöldi af leiðum til að halda "spilun" leiks ferskri og hef ég verið að brjóta heilann (ái) við að reyna að flokka þær. Eins og stendur hef ég þrengt þetta niður í þrjá flokka. Þetta er bara mín leið til þess að reyna að átta mig á þessu, og vafalaust myndu aðrir flokka þetta á einhvern annan hátt.

Stjórn

Umhverfi

Breytt spilun
--- --- --- --- ---

Já ég veit, ekkert allt of matarmikil súpa þetta... en held áfram næst og fer nánar í hvað ég meina með stjórn/umhverfi/spilun með dæmum og alles.

Hei, ekki gleyma að kíkja á nýju myndirnar hér fyrir neðan.

Kjallarastrákur

Enn ekki dauður...

Myndirnar sem ég lofaði ykkur:

Málverk í vinnslu, og það á striga! Á líklega eftir að mála yfir flesta fleti aftur, en svona stendur það nú:

Valdar myndir úr skissubókinni:

Nokkrar myndir af Dexter:

Jæja, þá er það komið. Farinn að leika mér.


Cellar Kid says 'C ya l8r'

Friday, January 16, 2009

Ekki dauður

Ég er ekki dauður. Ég veit, ég veit, mikið sjokk.

Hef verið mjög latur að blogga myndum, en hef þó verið að teikna helling. Það er bara að koma myndunum á stafrænt form. Ekkert flókið eða neitt svakalega tímafrekt, en samt... letin strikes again!

Fleiri myndir og lesefni er á leiðinni! Do not despair!

Have faith!

The Cellar Kid

Friday, January 9, 2009

Teiknimyndabloggerí - Nr. 1

Ég kynntist fyrir stuttu teiknimyndaþáttum sem einhverjir kannast eflaust við. Ég hafði áður séð einn og einn stakan þátt en aldrei fengið neinn svakalegan áhuga á þáttunum, fyrr en nú. Ég var að skoða mig um á Wikipedia og rak mig einhvern veginn á síðuna fyrir þessa þætti, og svo kynntist ég þaðan verkum þeirra sem unnið höfðu við þættina og áhugi minn jókst. Að lokum fór svo að ég náði í torrent með öllum þáttunum (og ef þessir þættir fengjust á DVD þá myndi ég kaupa þá).


Umræddir þættir kallast Dexter's Laboratory og sitja nú traustir efst á lista yfir mína uppáhalds teiknimyndaþætti.


'En Steingrímur', hugsar ábyggilega einhver, 'eru þetta ekki þættir fyrir krakka?'
Það má svo sem segja það, en það er bara raunin "on paper". Ég get sagt með nærri fullri vissu að fólkið sem stóð að þáttunum var ekki að hugsa
'Hvernig eigum við að gera þessa þætti skemmtilega fyrir krakka?'. Það eina sem var hugsað var hvernig hægt væri að gera þættina skemmtilega, púnktur.
Það er að vísu lítið um "fullorðins" húmor eins og finnst í öðrum teiknimyndaþáttum sem ekki teljast krakkaþættir, en það þarf ekki að þýða að maður geti ekki hlegið að bröndurunum í þættinum þó maður sé kominn á fullorðinsaldur.Þættirnir um litla snillinginn Dexter birtust fyrst á Cartoon Network fyrir um það bil tólf árum og þættirnir voru í framleiðslu til ársins 2003.

Dexter

Aðrar persónur sem koma fyrir í þáttunum eru m.a. Dee Dee,

mamma þeirra og pabbi (sem heita einfaldlega Mom og Dad),


ásamt ýmsum öðrum aukapersónum.

Krunk, Major Glory og Valhallen

Tuttugu mínúturnar fyrir hvern þátt skiptast yfirleitt í þrjár sögur, en einstöku sinnum eru tvær tíu mínútna sögur á hvern þátt. Söguþræðirnir eru frekar villtir og snúast oft um einhverja uppfinningu Dexters, eða þá systkinaríg milli Dexter og Dee Dee.

Í nokkrum sögum kemur svo fyrir að fókusinn er á einhverja "aukapersónu". Í fyrstu seríu var miðju-saga hvers þáttar um annaðhvort apann Monkey eða ofurhetjuþríeykið The Justice Friends, og einstöku sinnum er fókus sögunnar annaðhvort á mömmu eða pabba Dexter.

Það sem kom mér mest á óvart þegar ég var að horfa á þættina var þegar varpað var ljósi á þá staðreynd að Dexter er bara krakki og ýmislegt sem hann óttast. Sérstaklega er minnug sagan "Dim" í 32. þætti annarrar seríu, þar sem ein ljósaperan í rannsóknarstofu Dexters verður ónýt. Er að hugsa um að greina þá sögu nánar síðar.En nóg um Dexter held ég. Í bili að minnsta kosti.


This is The Cellar Kid, signing off.

Thursday, January 8, 2009

Setið við ströndina...

Ég stóð upp frá tölvunni minni fyrr í dag til að fara á klósettið. Þegar ég var á leiðinni aftur frá baðherberginu stoppaði ég fyrir framan nýju trönurnar mínar og ákvað að skella smá akrýl á blað:

Finnst líklegt að ég fari í þessa mynd aftur á morgun og máli himininn upp á nýtt.

Og hér er dáldið sem ég var að dútla við í Photoshop:

Wednesday, January 7, 2009

Halló halló (bergmál bergmál)

Bloggandi aftur eftir langa fjarveru. Fannst viðeigandi að þar sem ég er nú fluttur (niður í kjallara) að búa mér til nýtt blogg til að fagna því. Gamla bloggið er enn á sama stað ef einhver hefur áhuga (http://tub-of-lard.blogspot.com/).
En nóg um liðna tíð. Nú er komið nýtt ár og BETRA! Ég stefni á reglulegar uppfærslur (að MINNSTA kosti vikulega), og ef ég er ekki að standa mig þá býð ég fólki að commenta eða senda mér e-mail og skammast aðeins í mér.Sketchið að ofan (og seinni myndin, sketchið litað í Photoshop) er vegna undirbúningsvinnu fyrir málverk sem mig langar til að gera. Langar, en er ekki alveg viss hvort ég geti. Tími vart að leggja í þessa fínu striga sem ég fékk í jólagjöf, hræddur um að það gangi ekki upp.
En ég fer mér hægt, prófa mig áfram á pappír til að æfa mig í fínum pensil-strokum og hugsa vandlega um byggingu myndarinnar og litaval áður en ég legg pensil á striga.

The Cellar Kid