Hef verið að spila þennan leik nýlega. Mjög áhugaverður leikur, og vel gerður á flestan hátt. "Hreint" útlit leiksins og djörf notkun á skærum litum kemur vel út á skjánum, stjórn leiksins virkar einfaldlega mjög vel og spilun er yfirhöfuð skemmtileg.
Á stundum lá þó við að ég grýtti fjarstýringunni í sjónvarpið.
Leikurinn getur nefnilega verið dálítið pirrandi.
Vandi leiksins felst aðallega í umhverfinu. Í leik sem þessum þar sem spilun er hröð er mikil þörf á skýrum "leiðbeiningum", eitthvað til að stýra leikmanni á rétta braut. Leikmanni má aldrei finnast hann vera týndur, því það leiðir of auðveldlega til pirrings. Það gerist frekar oft í þessum leik að maður týnist; maður hleypur og stekkur og hleypur og er allt í einu kominn inn í eitthvert horn og þarf að líta í kringum sig til að finna leiðina áfram og þá er yfirleitt verið að elta mann eða skjóta á mann og getur vanhugsuð hönnun borða því oft leitt til dauða.
Ekki að það sé eitthvað að því að deyja, enda þarf í leikjum yfirleitt að vera einhver erfiðleiki sem þarf að yfirstíga. En dauði leikmanns má aldrei vera vegna einhvers annars en hans eigin mistaka. Ef leikmaður deyr vegna þess að hann spilaði leikinn ekki nógu vel þá er það eitt, en dauði vegna þess að hönnun leiksins er ekki nógu skýr er allt annað og verra.
Ég hef verið að hugsa mikið um einmitt þetta og önnur svipuð vandamál í tengslum við leik okkar Tómasar Árna. Það er, eins og ég minntist á hér áðan, mjög mikilvægt að sá sem spilar leikinn viti alltaf til hvers er ætlast af honum. Hann verður að vita hvert hann á að fara, hvað hann á að gera og hvernig. Að vita ekki hvað maður á að gera í leik leiðir bara til pirrings.
En svo er líka hægt að fara of langt, gera markmið of augljós. Þá leiðir leikurinn mann áfram og sleppir ekki taki, eins og verið sé að leiða lítinn krakka yfir götu. Leikurinn verður allt of auðveldur, allt of augljós; "hvert", "hvað" og "hvernig" eru eins og skærir ljósdeplar í myrku herbergi en ættu kannski frekar að vera daufar ljóstýrur.
Það fer að sjálfsögðu eftir hverskonar leik er verið að fjalla um hvað telst of mikið eða of lítið af leiðbeiningum. Sumir leikir geta ekki verið of augljósir á meðan aðrir þurfa að vera óljósir (að einhverju leiti að minnsta kosti).
Veit ekki alveg hvert ég er að fara með allt þetta, langaði bara að skrifa eitthvað um það sem ég er að hugsa þessa stundina.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
Leikurinn leit allavega helvíti töff út í þessu vídjói. Ég kem til með að spila hann næst þegar ég kem vestur.
ReplyDeleteJá hann lítur út fyrir að vera skemmtilegur. En hvernig væri nú að fara að sjá fleiri myndir eftir þig kjallaradrengur?
ReplyDelete